Friday, December 3, 2010

RIFF framhald

The Dealer
Þessi mynd fjallar um daglegt líf dópsala í Ungverjalandi. Ég ætlaði að skrifa eitthvað meira um plottið en það er virkilega ekki mikið að segja. Maðurinn gengur um á milli mismunandi viðskiptavina og selur þeim eiturlyf. Lýsingin virtist áhugaverð í dagskrá hátíðarinnar en við hefðum líklega átt að líta betur á "Lengd: 135 mínútur" hlutann. Þessi mynd er óeðlilega hæg og ég held að púlsinn minn hafi verið hættulega lágur á köflum. Flest atriði voru sirka 10 mínútna löng lágmark og það var lítið um klippingar í atriðunum heldur snerist myndavélin hægt og rólega um staðinn sem tekið var á. Aftur á móti leit myndin sjálf vel út. Hún skapaði drungalega stemningu með dimmri lýsingu og spooky tónlist. Það dugði samt ekki, enda gengum við út af henni (sem var ekkert lítið pínlegt, þurftum að labba framhjá tjaldinu) þegar það voru u.þ.b. 40 mínútur eftir.


The Ape
Í þessari mynd vaknar maður á baðherbergisgólfi útataður í blóði. Hann skilur ekkert og þrífur blóðið í skelfingu og flýtir sér í vinnuna. Lýsingin á The Ape gerði mig þvílíkt forvitinn og við ákváðum að skella okkur á hana sem síðustu mynd hátíðarinnar. Það voru mikil mistök. Eins og gerðist með The Dealer var lýsingin ansi villandi. Þessi mynd er algjörlega stefnulaus og er í rauninni bara fylgst með þessum blessaða manni fara á hina og þessa staði án þess að áhorfandinn viti eitthvað hvað er í gangi. Það var eitt óþolandi við myndina og það var að þegar maðurinn keyrði um í bíl, hjólaði eða hvernig sem hann ferðaðist, þá fékk maður að sjá nánast allt ferðalagið. Myndavélinni var stundum t.d. bara plantað í framsætið þegar hann keyrði og sýndi hann einfaldlega keyra í nokkrar mínútur, án þess að neitt var að gerast. Þegar ég hugsa til baka þá man ég voða lítið hvað gerðist í myndinni, en ég man mjög skýrt að hann var að keyra um á bíl helminginn af myndinni. Sem betur var þessi bara 81 mínútur, hefði hún verið mikið lengri hefði ég gengið út.


Big Man Japan
Big Man Japan fjallar um Masaru Daisatô sem er einhvers konar ofurmenni. Forfeður hans gegndu allir þessu hlutverki en þeir geta stækkað með hjálp rafstuðs og berjast þá við skrímsli til að verja borgina. Hann er illa séður af borgarbúum og reynir að auka vinsældir sínar með hjálp umboðsmanns síns. Þessi mynd er án efa sú skrítnasta sem ég hef nokkurn tíma séð. Til að byrja með starði ég bara án þess að skilja neitt en síðan fannst mér þetta bara ekkert lítið fyndið. Næstum allir bardagarnir við skrímslin voru skemmtilegir (þetta voru frumlegustu skrímsli sem ég hef séð) en mér fannst atriðin úr daglega lífinu hans stundum vera pínu langdregin. Lokaatriðið er örugglega fyndnasta atriði sem ég sá á RIFF, fáááránlega súrt. Mér fannst Big Man Japan mjög góð skemmtun enda ekki lík neinni mynd sem ég hef séð. 

The Room (2003)

The Room kom út árið 2003 og er frumraun leikstjórans Tommy Wiseau. Hann er leikstjóri, handritshöfundur og framleiðandi myndarinnar og fer líka með aðalhlutverkið. Aðalpersónan heitir Johnny og er hann vel stæður bankamaður sem er hann trúlofaður unnustu sinni, Lisu. Johnny trúir að allt leiki í lyndi en Lisa er ekki mjög spennt yfir brúðkaupinu og segir við vinkonu sína og móður að henni finnist hann leiðinlegur. Þá flækjast málin því besti vinur Johnny, Mark, á í leynilegu ástarsambandi við Lisu og þá hefjast gífurlegar dramafléttur.


Myndin er fyrst og fremst fræg fyrir að vera líklega ein versta mynd allra tíma. Leikarar myndarinnar eru mjög ósannfærandi og lélegir í alla staði. Þrátt fyrir það nær myndin að fara heilan hring og verður í raun bráðfyndin. Hún er það léleg að hún er betri en flestar grínmyndir sem ég sé í bíóum í dag. Sem dæmi er hér hið fræga blómabúðaratriði:



Við gerð myndarinnar lýsti Tommy Wiseau myndinni við alla leikarana sem melódramatískri en eftir í seinni tíð heldur hann fram að hún sé svört kómidía, líklega til að bjarga andlitinu sínu. The Room er svokölluð cult mynd og er myndin sýnd einu sinni í mánuði í bíóhúsi í Hollywood þar sem áhorfendur myndarinnar kunna línurnar utanað og kalla þær jafnóðum þegar leikarnarnir fara með þekkta frasa. Til dæmis er eitt atriði í myndinni skreytt með undarlegum myndum af skeiðum svo í hverju atriði með því herbergi kasta allir áhorfendur skeiðum eins og brjálæðingar í átt að tjaldinu. Það má sjá hér:





Til gamans má geta að Tommy Wiseau eyddi yfir 6 milljónum bandaríkjadala við gerð myndarinnar án neinnar utanaðkomandi hjálpar. Enginn veit í raun og veru hvernig hann safnaði þessum upphæðum en eina sem hann hefur gefið upp er að hann flutti inn leðurjakka frá Kóreu.


Það er heill hellingur af fáránlega illa gerðum atriðum í The Room og mörg hafa náð miklum vinsældum á netinu (t.d. er ein frægasta lína myndarinnar „You‘re tearing me apart, Lisa!“ sem Tommy segir með óaðfinnanlegum tilþrifum). Sem dæmi um enn fleiri léleg vinnubrögð þá á einn leikarinn í einu atriði að öskra „Johnny!“, en segir óvart „Tommy!“ sem er að sjálfsögðu alvöru nafn meistara Wiseau. Þeir nenntu greinilega ekki að laga þetta og eru þessi mistök í endanlegri útgáfu The Room. Auk þess eru mjög mörg atriði dubbuð en það tekst nánast aldrei vel upp og maður sér greinilega að munnurinn hreyfist ekkert í takt. Annars er hér eitt frægasta atriðið úr myndinni sem allir verða að sjá:





The Room er hræðileg mynd en samt yfirburða skemmtun. Það er gaman að spá í öllum villunum í handritinu og erfiðleikum leikaranna við að lifa sig inn í hlutverkið sitt. Mæli hiklaust með henni.

Saturday, October 2, 2010

RIFF

Er búinn að fara á nokkrar myndir á RIFF og er nokkuð sáttur með afraksturinn. Myndirnar eru samt auðvitað misgóðar en hér eru fyrstu 4 myndirnar sem ég fór á:

Bad Family
Bad Family fjallar um mann sem skildi snemma við konuna sína og ólu þau upp sitthvort barnið, maðurinn fékk soninn og konan dótturina. Sextán árum síðar deyr konan og dóttirin kemur inn í líf feðganna og virðist ætla að eyðileggja allt sem faðirinn hafði byggt upp í lífi sonar síns. Honum líst ekkert á þetta nýja, nána samband systkinanna og reynir hvað sem það kostar að slíta þeim í sundur. Fyrsta myndin sem ég fór á og í heildina fannst mér þessi mynd nokkuð góð en stóð ekkert rosalega upp úr. Leikarahópurinn var allur mjög góður og þá sérstaklega sá sem fór með hlutverk föðurins.  Hef eiginlega ekki mikið að segja um myndina en hún var þægilega löng og plottið var ágætt (smá sifjaspell reyndar).




Womb
Womb fjallar um Rebecca og Tommy sem voru krúttlegt par sem lítil börn en aðskiljast þegar Rebecca flytur til Tokyo. Hún snýr aftur tólf árum síðar og þau taka aftur upp þráðinn frá því þegar þau voru krakkar. Tommy lætur svo skyndilega lífið í bílslysi og Rebecca bregst við því með að klóna Tommy og fæða hann aftur og ala hann upp sjálf. Veit ekki alveg hvað ég á að segja um þessa mynd. Hún fékk almennt góða dóma og ég skil vel af hverju, hún hefur mjög flottan heildarsvip og margar tökur ná að skapa sannfærandi stemningu með t.d. þöglum skotum af öldugangi við fjöru. Sum atriði fannst mér vera óþægilega "suggestive" þegar Rebecca var að leika við Tommy (eftir klónunina) og maður sá hvernig hún leit ekki alltaf á hann sem son sinn heldur gamlan elskhuga.Það væri líklega hægt að skrifa doktorsritgerð um siðfræðilegu hliðar myndarinnar, enda er þessi pæling um að klóna látinn kærasta sinn frekar óvenjuleg . Verð samt að viðurkenna að mér persónulega leið ekkert mjög vel eftir myndina og fannst hún temmilega ógeðsleg. Maður verður að horfa á hana alla til að skilja af hverju en ég vil ekki sjá þessa mynd aftur.

Cyrus
Cyrus fjallar um fráskilda manninn John sem kynnist Molly í partíi. Þau hittast svo aftur reglulega og kemur þá í ljós að Molly á 21 árs gamlan son, Cyrus, sem gengur ekki alveg heill til skógar og lendir hann í eins konar stríði við John yfir Molly. Mér fannst myndin mjög fyndin á köflum og skemmtilega súr. Hún náði einstaklega vel að fanga vandræðalegum augnablikum og allir leikararnir voru góðir í að gera flestar senur eins vandræðalegar og mögulegt var. Verð samt að segja að mér fannst myndin enda mjög snögglega, var að búast við allavega svona 15-20 mínútum til viðbótar þegar creditlistinn birtist allt í einu. Myndatakan var frekar frjálsleg og var mikið á hreyfingu, sem var kúl í mörgum atriðum, en eins og mörgum öðrum fannst mér þessi snöggu zoom yfirleitt bara óþægileg. Í heildina var þetta góð mynd samt.



Toxic Playground
Toxic Playground fjallar um eitraða blýhrúgu sem var komið fyrir í smábæ í Chile af sænska námufyrirtækinu Boliden. Krakkarnir í bænum höfðu ekki hugmynd um skaðsemi hrúgunnar og léku sér í henni eins og þetta væri sandhrúga. Mörgum árum síðar kemur í ljós að hún hafði gífurlega skaðleg áhrif og fæðast börn þar nú með hræðilegar fatlanir. Ég of félagar mínir ætluðum upphaflega á When the Dragon Swallowed the Sun en það var uppselt á hana svo við völdum einhverja mynd sem við vorum ólíklegir til að fara á venjulega og völdum þessa. Við bjuggumst ekki við miklu en þessi mynd kom svo bara rosalega á óvart! Hún fjallar jafnt um allar hliðar málsins og er rosalega hlutlaus miðað við að strákurinn sem gerði myndina er frá Chile en ólst upp í Svíþjóð. Myndin kemur manni vel inn í líf fólksins í smábænum og flettir meira að segja af mörgum vafasömu varðandi gerð samningsins um flutninginn á hrúgunni frá Svíþjóð til Chile. Toxic Playground kom skemmtilega á óvart og er með betri myndum sem ég hef farið á hingað til á RIFF.


Ég er búinn að fara á nokkrar myndir til viðbótar og skelli þeim líklega inn í öðru bloggi seinna.



Tuesday, September 28, 2010

Citizen Kane

Í grunninn fjallar Citizen Kane um dauða Charles Foster Kane, gífurlega ríkan eiganda fréttablaðsins „The Inquirer“ en myndin sýnir líf hans frá byrjun til enda og hvernig sívaxandi veldi hans breytir honum. Á dánarbeði sínu segir hann aðeins orðið „Rosebud“ og eru blaðamenn að rannsaka hvort einhver merking sé í orðinu og reyna að komast að því hvað/hver þessi Rosebud er. Myndin þykir algjör brautryðjandi síns tíma á mörgum sviðum, t.d. myndatöku og ég tók sérstaklega eftir því hvað förðunin á aðalleikurunum er sannfærandi. Orson Welles er ekki nema 26 ára þegar hann gerir myndina (sem er einnig fyrsta alvöruverk hans) og eru margir leikararanna á svipuðum aldri. Myndin sýnir líf Charles F. Kane frá því hann er um tvítugt þar til hann er orðinn vel aldraður og ég verð að segja að gamla-kalla-lúkkið hans tókst virkilega vel upp. Welles var mjög trúverðugur í hlutverkinu sínu og ekki síður Joseph Cotten sem fór með hlutverk Jedediah Leland.

Hvað varðar myndina sjálfa og söguþráðinn þá fannst mér hún áhugaverð í heildina en ekki alveg nógu grípandi á köflum. Það voru nokkur atriði þar sem ég byrjaði að hugsa um eitthvað allt annað því það var svo lítið að gerast en það gerðist sem betur fer ekki oft. Maður er svo vanur nútímakvikmyndagerð að langar senur með löngum samtölum (og svart-hvíti liturinn gerir það pínu meira dull) ná ekki alltaf að halda athygli minni en ég skil alveg að á þeim tíma sem myndin er gerð var þetta mun eðlilegra svo ég ætla nú ekkert að setja mikið út á það.

            Eitt atriði sem fékk mig til að pæla var þegar Kane og Susan fóru í lautarferð sem má sjá á myndinni til vinstri (reyndar sést eiginlega ekki neitt). Í bakgrunninum var eitthvað skrítið í gangi því mér fannst það líta út eins það væri risastórt tjald með tilbúnum bakgrunni og einhverjum undarlegum fuglum fljúgandi um í mjög lágri upplausn. Mér fannst þetta mjög áberandi og kannski of augljóst til að vera mistök svo ég ákvað að fletta þessu upp á imdb eftir myndina. Kom þá í ljós að það var of dýrt og tímafrekt að taka atriðið upp á alvöru tökustað svo að bakgrunnurinn var fenginn úr King Kong og fuglarnir í lágu upplausninni voru í raun ekki fuglar heldur flugeðlur! Sagt er að Welles líkaði víst voða vel við þessar flugeðlur og vildi halda þeim óbreyttum.

            Það voru nokkrir aðrir gallar sem pirruðu mig pínu eins og í atriðinu þegar Kane kallar á eftir Gettys í stigaganginum heima hjá Susan þá er hljóðið greinilega ekki í sync við hann sjálfan. Nú er ég ekki nógu fróður um tæknina á þessum tíma en ég ætla bara að gera ráð fyrir því að Welles hefði lagað þetta ef hann gæti. Nú er ég búinn að setja smá út á tæknilega galla myndarinnar sem er tæplega 70 ára gömul þannig að ég skal bæta aðeins úr því. Mér fannst eitt atriði mjög flott og það var þegar Kane og félagar hans voru að horfa á ljósmynd inn um glugga af mönnum sem sátu saman og svo þegar maður hélt að þetta væri bara ljósmynd var klippt yfir þar sem þeir stóðu skyndilega upp og voru þá allir í veislu vegna velgengni Kane. Þetta var gert svo áreynslulaust að það kom mér vel á óvart fyrir svo gamla mynd þar sem þetta trick er ekki gert mikið betur í dag. Það voru fleiri atriði sem mér fannst flott og þá sérstaklega myndatakan en mér dettur ekki neitt sérstakt í hug einmitt nú.

            Í heildina fannst mér Citizen Kane temmilega góð mynd þó að ég set hana á ekki jafnháan stall og flest kvikmyndagúru gera en ég skil samt vel af hverju hún þykir meistaraverk síns tíma.

Sunday, September 26, 2010

Maraþonmynd

Ég, Örn, Ármann og Villi vorum saman í hóp og gerðum maraþonmynd eftir gamalli hugmynd sem ég og Örn höfðum síðan úr grunnskóla. Þemað okkar var þó hatur en lögðum það eiginlega til hliðar því við vildum nota upphaflegu hugmyndina. Í grófum dráttum fjallar plottið um mann sem „stalkar“ annan gæja með því að birtast á ýmsum stöðum og gæða sér á kartöfluflögum á meðan hann fylgist grannt með honum úr fjarlægð.
                Til að byrja með þurftum við að ákveða upptökustað. Okkur fannst ágæt hugmynd að hafa upphafssenuna í Hallgrímskirkju og láta Ármann þá labba út úr kirkjunni og svo niður Skólavörðustíginn en ef ég man rétt var jarðaför í kirkjunni svo við völdum Iðnskólann í staðinn. Við eyddum líklega hátt í 30 mínútum í að skoða myndavélina og rifja upp allar stillingarnar áður en við tókum fyrstu senuna. Það voru allir að pota og krukka í hinum og þessum tökkum en það rifjaðist flest upp að lokum. Við vorum reyndar ekki alveg klárir á hvernig lýsingin kom út og vorum ekki nógu öruggir á White Balance dótinu og varð það til þess að fyrstu tvær tökurnar í myndinni voru aðeins dekkri en restin, eftir að við fiktuðum meira í stillingunum.
                Svo hófu tökurnar loksins af alvöru og við létum Villa klifra nokkrum sinnum á þök (mjög hættulegar senur, Villi á skilið mikið kredit!) en þegar við vorum komnir með gott tempó þá varð veðrið alveg vangefið og það rigndi eins og enginn væri morgundagurinn. Við þrjóskuðumst þó eitthvað áfram og skýldum myndavélinni með jökkunum okkar en flúðum svo inn í bíl þegar það varð alveg brjálað. Eftir að við keyrðum í heilar þrjátíu sekúndur á Vitabar fyrir börger stytti svo skyndilega upp svo að nýttum tækifærið og fórum aftur til baka til að taka upp restina af myndinni.
                Þegar við kláruðum svo myndina fengum við okkur svo sveittan börger og þá tók við eina eftirvinnslan sem var í boði, tónlistin. Snúran sem var notuð til að tengja ipod við myndavélina gufaði víst upp svo að við þurftum að rúnta í Garðabæinn til bekkjarbróður okkar eftir eins snúru en ég man lítið eftir því því ég var ekki með fullri meðvitund sökum þreytu. Þá tók við ennþá meira vesen því okkur tókst ekki að fá myndavélina til að play-a þegar við ætluðum að dubba en það vandamál leystist sem betur fer. Þetta var langur og krefjandi dagur en langt frá því að vera leiðinlegur enda er virkilega gaman að taka upp kvikmynd.

Thursday, August 26, 2010

Uppáhalds myndir

Þegar ég var spurður hver uppáhalds kvikmyndin mín væri fyrir 4-5 árum var ég alltaf óákveðinn og taldi í hvert skipti upp mismunandi myndir svo að ég tók mig til fyrir ekki svo löngu og valdi eina mynd sem ég ákvað að gefa þennan stóra heiður. Það var myndin The Prestige eftir snillinginn Christopher Nolan með stórleikurunum Christian Bale og Hugh Jackman í aðalhlutverkum. Hún var ein af þessum myndum sem ég vildi að hætti aldrei meðan ég horfði á hana, alveg fram á síðustu mínútu. Myndin fjallar um tvo vini og töframenn/sjónhverfingarmenn sem lenda í deilum og keppast um hvor getur samið betra töfrabragð. Umhverfi og sögusvið myndarinnar (London undir lok 19. aldar) heillaði mig mjög mikið og söguþráðurinn fannst mér einstaklega grípandi, sérstaklega „twistið“ í lokin. Hver einasti leikari stóð sig frábærlega, Michael Caine var stórgóður eins og venjulega og meira að segja David Bowie var betri en ég bjóst við. Toppmynd.

                Næst ætla ég að velja Indiana Jones and the Last Crusade sem allir ættu að kannast við. Ég sá hana fyrst þegar ég var lítill og var þá þegar dolfallinn Indy aðdáandi. Harrison Ford fer að vanda með hlutverk Indiana Jones og fjallar myndin um för hans eftir heilaga kaleiknum og slæst faðir hans í för með honum, sem er leikinn af Sean Connery, sem hefur einhverra hluta vegna ekki elst síðan myndin var gerð. Sem lítill krakki hafði ég sérstaklega gaman af atriðunum þegar Indiana Jones leysir fornar þrautir og hleypur frá risastórum steinhnullungum sem elta hann eftir göngum.

                Ein mynd ómissandi á þennan lista er Disney-myndin Herkúles. Hún er mjög gott dæmi um ofspilaða mynd á heimilinu fyrr á árum og er nánast betri í hvert skipti sem maður horfir á hana. Þetta er ein af þessum myndum sem maður kann nánast hvert atriði utan að og hlær alltaf jafnmikið af öllum atriðum. Þótt flestir kunna líklega söguþráðinn fjallar myndin um verkefni Herkúlesar að sanna sig sem sönn hetja til að ganga í guðatölu. Hades, aðalóvinur Herkúlesar í myndinni, er að mínu mati besti karakter sem Disney hefur búið til ásamt Jafar úr Aladdin, bæði í enskri og íslenskri talsetningu (þó Jafar sé áberandi betri í íslensku útgáfunni).

                Næst fyrir valinu er myndin Life of Brian eftir Monty Python gengið. Mögulega fyndnasta mynd allra tíma og endalaust hægt að „quote-a“ góða frasa úr henni. Erfitt er að velja atriði sem standa upp úr en öll atriði sem innihalda Pontíus Pílatus og Biggus Dickus eru ódauðleg. Söguþráður myndarinnar er ekki mjög digur, eins og í öllum öðrum Monty Python myndunum, en er þó digrastur af þeim öllum. Hún fjallar um hremmingar Brians í Júdeu og hina ógnvekjandi Rómverja. Myndin sló svo vel í gegn að lagið Always Look on the Bright Side of Life er oft sungið í jarðaförum og er líklega frægara en myndin sjálf. Af öllum Monty Python myndunum þykir mér þessi best, þó þær séu allar í miklu uppáhaldi.

                Að lokum verð ég að nefna Crank: High Voltage. Hin fullkomna blanda af spennu og gríni. Þó svo að The Prestige sé uppáhalds myndin mín er Jason Statham án efa uppáhalds leikarinn minn. Ég geri mér grein fyrir að hann er ekki líklegasti leikarinn til að vera tilnefndur til Óskarsverðlauna en ég hef einfaldlega svo gaman af öllum myndunum hans að ég get ekkert að þessu gert. Jason Statham fer með hlutverk Chev Chelios sem lendir í því óláni að hjartanu hans er skipt út fyrir gervihjarta sem gengur fyrir rafhlöðum. Þær klárast fljótlega og hann getur því bara haldið sér á lífi með að gefa sjálfum sér rafstuð til að hlaða tækið. Myndin er gjörsamlega á fullu allan tímann og hleypir púlsinum ekki undir 150 slög á mínútu. Að fara á þessa mynd í bíó var þvílíkur rússíbani.
                Eftir að hafa skrifað um Jason Statham var mér hugsað til Snatch sem hefði í rauninni átt að vera á þessum lista en sökum plássleysis verður þetta að nægja.