Sunday, April 3, 2011

Aladdín

Allir ættu nú að þekkja eitt mesta meistaraverk Disney fyrr og síðar, Aladdín. Hún er ein af mörgum Disney myndum sem ég ólst upp við og ég hef séð hana nógu oft til að kunna hana nánast utanað. Myndin kom út árið 1992 svo ég var nú ekki nema eins árs þá en þrátt fyrir það var greyið spólunni gjörsamlega rústað í vídjótækinu í mörg, mörg ár. En fyrir þá sem hafa ekki séð meistaraverkið þá fjallar myndin um strákinn Aladdín sem er fátækur götustrákur og býr einn ásamt apanum sínum, Abú. Prinsessan, Jasmín, fær leið á að mega ekki að stíga fyrir utan hallarveggina og strýkur að heiman. Á götumarkaðnum hittir hún Aladdín og þá hefst ævintýrið. Jafar, ráðgjafi soldánsins, er að plotta yfirráð og notfærir sér Aladdín til að ná í lampa, sem andinn býr í, úr „töfrahellinum“. Ég held að það sé óþarfi að segja meira frá plottinu enda eiga allir að séð þessa mynd, ef ekki þá er best að skokka snöggvast út á vídjóleigu.

Myndin hefur allt sem einkennir góða Disney mynd (og allar gullaldarmyndir þeirra frá 90s): húmor sem höfðar til fólks á öllum aldri, catchy lög sem allir kunna að syngja með, eitursvalan vondakall og margt fleira sem mér dettur ekki í hug einmitt núna! Svo verð ég taka það fram að ég átti að sjálfsögðu íslensku talsetninguna sem mér finnst talsvert betri en sú enska. Þótt að Felix Bergsson tali inn á allar karlkynspersónur í teiknimyndum í dag þá er röddin hans alltaf Aladdín röddin fyrir mér. Laddi á líka þvílíkan leiksigur sem rödd andans, þvílíka yfirburðatalsetningu finnur maður í engri annarri teiknimynd. Enda hef ég lesið að Disney sjálfir hafi bent á íslensku talsetninguna fyrir andann sem fyrirmynd þegar önnur lönd voru að vinna í sinni talsetningu, t.d. Japan. Arnar Jónsson brillerar líka sem Jafar.
Hluti af góðu gengi myndarinnar er örugglega að þakka supervising animator myndarinnar, Glen Keane. Hann bjó til og hannaði Aladdín sjálfan og hefur skapað margar þekktustu persónur Disney mynda, t.d. dýrið úr Fríða og Dýrið, Ariel úr Litlu Hafmeyjunni, Pocahontas, Tarzan og m.a. Rapunzel úr Tangled (sem er geðveik, mæli mjög með henni). Allt sem maðurinn gerir er gull!

Ég veit ekki hvort ég eigi eitthvað eitt uppáhaldsatriði í myndinni en það eru nokkur sem standa upp úr. Ég dýrka atriðið þegar Jafar dulbýr sig sem hundgamall kall og hjálpar Aladdín að flýja úr dýflissu sem honum var fleygt í. Öll lögin eru líka í miklu uppáhaldi, sérstaklega „Þú átt engan betri vin en mig“. Fann meira að segja íslensku útgáfuna á youtube!



Þess má líka til gamans geta að myndin vann til Óskarsverðlauna fyrir besta lagið, A Whole New World.

Myndin er mjög stór hluti af æsku minni og ég er enn í dag að kvóta úr myndinni við vini mína og systkini mín (ég er alltaf að troða inn „ég trúi þessu ekki, að tapa fyrir teppi!“ eða „við erum allir með sverð!“) og ég held að ég muni aldrei eldast upp úr þessari mynd.

Friday, April 1, 2011

Kvikmyndagerð 2010-2011

Jæja ég settist niður til að skrifa nokkur orð um námskeiðið. Byrjum á að fara aðeins aftur í tímann. Ég valdi kvikmyndagerð sem val í 9. bekk í grunnskóla og svo bókmennta- og kvikmyndafræði í 10. bekk (sem hafði reyndar ekkert að gera með bókmenntir). Í kvikmyndagerð fóru allir tímarnir í að taka upp efni og klippa, allir fengu að gera það sem þeir vildu og útkoman mjög skrautleg. Í kvikmyndafræði horfðum við aftur á móti á myndir og töluðum í dágóðastund um þær eftirá. Til að tengja þetta nú saman við kvikmyndagerð hér í MR þá finnst mér sum atriði úr þessum valfögum geta bætt kvikmyndagerðina hér: 
  • T.d. gefa þeim hópum sem er að taka upp/klippa frí í miðvikudagstímum. Þetta er að vísu ekki mikil breyting en það gæti hjálpað aðeins uppá tímaþröngina sem maður lendir alltaf í því það getur verið erfitt að smala saman hópum eftir skóla. Þegar miðvikudagstímarnir eru búnir er klukkan oftast að verða 5 og erfitt að byrja á einhverju áður en það er komið kvöld. Ef maður fengi frí þá væru allavega allir lausir á sama tíma og maður græðir liggur við heilan dag fyrir myndina. Þetta er ekki stór breyting en getur verið eitt af þessum litlu hlutum sem bæta. 
  • Spjalla meira um myndir sem við horfum á á miðvikudögunum. Ég man mjög vel þegar það var spjallað t.d. um Donnie Darko og Mulholland Drive í grunnskóla og hvað það vakti áhuga minn á kvikmyndum þegar maður sá alvöru pælingar um hvað var í gangi í þessum myndum. Það er að vísu aðeins erfiðara hér þar sem við erum búin í tímunum klukkan 5 og allir dauðþreyttir eftir langan dag en það mætti þá kannski spjalla um þær í föstudagstímunum, kannski í góðar 15-20 mínútur í byrjun tímans. Það þarf heldur ekki að tala um allar myndir (t.d. umskurðsmyndin, lítið að segja um hana) en myndir með flóknu plotti er alltaf gaman að pæla í.

Varðandi kvikmyndasöguna þá er hún svipuð og ég hafði búist við fyrifram. Verst hvað mér finnst kvikmyndasaga persónulega ekki mjög spennandi enda skráði ég mig fyrst og fremst fyrir verklega hlutann. Sjálf framsetningin er fín en eina sem ég hef að setja út á kvikmyndasöguna er að mér finnst hún of stór hluti af námskeiðinu og taka nánast allan tímann sem við höfum í kennslustofunni.

Svo eru það bloggin. Það er tímafrekt að skrifa gott blogg og er þess vegna ekki eitthvað sem mann hlakkar til að gera þegar maður kemur heim. Mér finnst pælingin á bakvið bloggin kannski ekki nógu góð (þá bara því það er erfitt í framkvæmd, hugmyndin sjálf er samt góð) og mér dettur í hug að hafa þá bara mini-verkefni þar sem litlir hópar (kannski 2-4 í hóp) geta tekið eitthvað spontant upp í mánudags- eða föstudagstímunum í staðinn og væri þá hægt að klippa eftir skóla. Nú veit ég ekki hvernig þetta myndi virka þar sem maður þyrfti að sleppa nokkrum kvikmyndasögutímum og það er kannski ekki vel séð að hafa einhverja ofvirka krakka með myndavél á göngunum en ég held að það gæti verið virkilega gaman að taka upp t.d. sketsa eða eitthvað þá bara rétt fyrir utan skólalóðina. Nú eftirá hugsa ég að þetta er kannski ekki mjög sniðug hugmynd en ég ætla að leyfa þessu að standa í bili. 
Annars til að hvetja til meiri bloggskrifa gæti verið snjallt að skylda alla til að blogga um myndina sem er horft á á miðvikudögum. Þá gæti það orðið meiri rútína og þá væri allavega komið eitt reglulegt blogg á viku. Ég held að fleiri myndu blogga ef þeir litu á það sem reglulegan atburð eins og stærðfræðipróf, heimadæmi o.s.frv. Svo eins og aðrir hafa nefnt þá er ég sammála um að 70 stig séu of mikið.
Hér eru svo nokkrir punktur um hitt og þetta:
  • FDF verkefnið var allt frekar random fannst mér. Veit ekki hvort það sé endilega nauðsynlegur partur af námskeiðinu, kannski er nóg að gera bara prufuverkefnið og skoða svo fleiri dæmi um hvernig þetta er notað í kvikmyndum. Ég get líka ímyndað mér að það sé erfitt að fara yfir þetta próf.
  • Finnst að myndirnar sem við gerum mættu hafa meira vægi. Man ekki allar prósenturnar en mig minnir að bloggin voru 40% af jólaeinkunn sem kom mér vel á óvart. Finnst að það mætti fórna nokkrum prósentum þaðan í myndirnar.
  • Fyrirlestrarnir eru góðir, fannst þeir skemmtilegir og fræðandi.
  • Heimsóknir frá leikstjórum var algjör snilld, mjög skemmtilegir tímar.

Eins og kom fram áðan þá skráði ég mig í þetta val fyrst og fremst fyrir verklega hlutann. Ég bjóst alveg við einhverju fræðilegu líka en hélt að öll áherslan væri á stuttmyndagerð. Veturinn er samt búinn að vera mjög skemmtilegur og ég hlakka til að sjá myndirnar á mánudaginn!




Tuesday, February 1, 2011

Micmacs

Micmacs kom út árið 2009 og er nýjasta mynd franska leikstjórans Jean-Pierre Jeunet hefur m.a. gert myndirnar Amélie og The City of Lost Children. Micmacs fjallar um meðaljóninn Bazil sem vinnur í myndbandaleigu og verður fyrir því óhappi að í skotárás nálægt honum flaug ein kúlan á mjög ólíklegan hátt beint í hausinn hans. Hann lifir það af en missir í kjölfarið starfið sitt og íbúð. Á götunni hittir hann gamlan mann sem kynnir honum fyrir hópi fólks sem býr saman í einhvers konar scrapyard (vantar íslenska orðið, skrapahaugur?). Bazil, með hjálp þeirra, hefnir sín svo á tveimur risafyrirtækjum sem framleiða hervopn sem hafa eyðilagt líf hans.


Til að byrja með fannst mér myndin stefna í að vera frekar skrítin og var hræddur um að hún væri jafn súr og sumar franskar myndir sem ég hef séð (t.d. Delicatessen, hún er vægast sagt stórfurðuleg). Sem betur fer var hún temmilega „eðlileg“ svo að mér tókst auðveldlega að sökkva mér í plottið. Söguþráðurinn var skemmtilegur og ég uppgötvaði nokkur sniðug trikk við að horfa á myndina, t.d. að fylla pósthólf með vatni svo að pósturinn fljóti upp eða láta hljóðnema síga niður skorstein til að hlera stofuna. Það var líka margt í myndinni sem skapaði frekar sérstaka stemningu. Tónlistin t.d. passaði mjög vel, sem var að mestu leyti létt harmonikkuspil. Það var líka dimm slekja yfir myndinni sem virkaði eins og mengunarský sem passar vel við umhverfi myndarinnar. Leikararnir léku líka rosalega mikið með svipbrigðum frekar en að tala sem hefði auðveldlega getað gert myndina leiðinlega skrítna en það heppnaðist vel og gerði hana í staðinn skemmtilega.


Mér fannst líka sniðugt hvernig þeir sýndu hvað fólk var að hugsa með því að sýna zoomað skot af enni einhvers og svo sá maður inní enninu hvað sá átti að vera að hugsa. Þetta trikk hefur pottþétt verið notað áður en það var vel gert í myndinni og nauðsynlegt fyrir endi myndarinnar (sem er ansi góður).
Myndin var í heildina góð þótt það voru nokkrir dauðir kaflar þar sem hún virkaði pínu langdregin. Leikararnir voru allir góðir, kannski sérstaklega liðuga stelpan sem gat komið sér fyrir nánast alls staðar. Mæli samt með myndinni, fínasta skemmtun.

Sunday, January 30, 2011

A glance at blows

Ég las greinina A glance at blows sem er skrifuð af David Bordwell og fjallar um mismunandi aðferðir við gerð bardagaatriða. Meistari Bordwell er aðdáandi asískra hasarmynda og heldur því fram að bardagamyndir frá Japan og Hong Kong séu jafnmikilvægar kvikmyndagerðinni og sovéska montage stefnan. Hann lýsir því hvernig vel útfærð bardagaatriði fá mann stundum til að hlæja, ekki útaf einhverju fyndnu, heldur í einhvers konar „sigurgleði“ eða dirfsku af hálfu söguhetjunnar (það þekkja þetta allir held ég, frekar erfitt að lýsa nákvæmlega af hverju þetta gerist). Þess vegna er hann svekktur yfir því að upp úr 1980 fóru leikstjórar að breyta yfir í meira „bumpy“ stíl þar sem það er klippt mega hratt og enginn sér hvað er að gerast og nefnir hann leikstjórana Roger Spottiswoode og Michael Bay sem helstu sökudólgana fyrir þessu trendi. Eitt besta dæmið um mynd sem þjáist af þessu trendi er Bourne serían. Ég man vel eftir því þegar mamma sá fyrstu myndina og sagði mér hvað hún eiginlega skildi varla bardagaatriðin því það var svo hratt klippt og myndavélin var bara út um allt.


Skoðum samt bardagaatriði með besta hasarleikara samtímans, Jason Statham.
Í fyrstu Transporter myndinni, sem kom út árið 2002 og er leikstýrð Yuen Kwai, er snefill af gamla skólanum sem Bordwell hrífst af. Þar er atriði þar sem Statham er mættur ber að ofan og vel blóðugur að niðurlægja nokkra vesalinga á verkstæði. (fann bara eitt myndband með þessu atriði og það virkar ekki að linka beint á það, en það er byrjar á 2:00 hér http://www.youtube.com/watch?v=-o5uKksR6EU )

Aftur á móti er strax allt annar fílingur í Transporter 3, sem kom út aðeins 6 árum síðar og er leikstýrð af Olivier Megaton. Þar er klippt 4-5 sinnum á sekúndu, allt virkar mjög ruglandi og það er erfiðara að fylgjast með. 




Þótt það sé mikill klassi yfir Transporter 3 atriðinu (jakkinn og allt það) er ég sammála Bordwell um að hinn stíllinn er flottari og skemmtilegri að fylgjast með.

Í greininni spyr hann sig hver ástæðan fyrir þessari þróun sé. Hann telur upp nokkrar mögulegar ástæður, t.d. hræðsla við ritskoðun eða þá að það sé verið að reyna að sýna að slagsmál séu svona ruglingsleg í alvöru. Það má vel vera að það gildi um meðalmanninn, eins og Bordwell bendir á, en í kvikmyndunum eru söguhetjurnar þjálfaðir bardagamenn. Skilningarvit þeirra eru skörp og þeir vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Þetta stangast eiginlega á og ég persónulega verð stundum pirraður við að horfa á svona atriði því mér finnst ég vera að missa af atriðinu í heild sinni þegar maður sér bara brot af öllu sem gerist.

Mér finnst flottust bardagaatriðin sem eru tekin í einni samfelldri töku þar sem maður sér allt sem gerist og þau eru líka svo raunveruleg fyrir vikið, t.d. langa atriðið á ganginum í Oldboy. Að lokum er hér eitt atriði úr 300:


Friday, December 3, 2010

RIFF framhald

The Dealer
Þessi mynd fjallar um daglegt líf dópsala í Ungverjalandi. Ég ætlaði að skrifa eitthvað meira um plottið en það er virkilega ekki mikið að segja. Maðurinn gengur um á milli mismunandi viðskiptavina og selur þeim eiturlyf. Lýsingin virtist áhugaverð í dagskrá hátíðarinnar en við hefðum líklega átt að líta betur á "Lengd: 135 mínútur" hlutann. Þessi mynd er óeðlilega hæg og ég held að púlsinn minn hafi verið hættulega lágur á köflum. Flest atriði voru sirka 10 mínútna löng lágmark og það var lítið um klippingar í atriðunum heldur snerist myndavélin hægt og rólega um staðinn sem tekið var á. Aftur á móti leit myndin sjálf vel út. Hún skapaði drungalega stemningu með dimmri lýsingu og spooky tónlist. Það dugði samt ekki, enda gengum við út af henni (sem var ekkert lítið pínlegt, þurftum að labba framhjá tjaldinu) þegar það voru u.þ.b. 40 mínútur eftir.


The Ape
Í þessari mynd vaknar maður á baðherbergisgólfi útataður í blóði. Hann skilur ekkert og þrífur blóðið í skelfingu og flýtir sér í vinnuna. Lýsingin á The Ape gerði mig þvílíkt forvitinn og við ákváðum að skella okkur á hana sem síðustu mynd hátíðarinnar. Það voru mikil mistök. Eins og gerðist með The Dealer var lýsingin ansi villandi. Þessi mynd er algjörlega stefnulaus og er í rauninni bara fylgst með þessum blessaða manni fara á hina og þessa staði án þess að áhorfandinn viti eitthvað hvað er í gangi. Það var eitt óþolandi við myndina og það var að þegar maðurinn keyrði um í bíl, hjólaði eða hvernig sem hann ferðaðist, þá fékk maður að sjá nánast allt ferðalagið. Myndavélinni var stundum t.d. bara plantað í framsætið þegar hann keyrði og sýndi hann einfaldlega keyra í nokkrar mínútur, án þess að neitt var að gerast. Þegar ég hugsa til baka þá man ég voða lítið hvað gerðist í myndinni, en ég man mjög skýrt að hann var að keyra um á bíl helminginn af myndinni. Sem betur var þessi bara 81 mínútur, hefði hún verið mikið lengri hefði ég gengið út.


Big Man Japan
Big Man Japan fjallar um Masaru Daisatô sem er einhvers konar ofurmenni. Forfeður hans gegndu allir þessu hlutverki en þeir geta stækkað með hjálp rafstuðs og berjast þá við skrímsli til að verja borgina. Hann er illa séður af borgarbúum og reynir að auka vinsældir sínar með hjálp umboðsmanns síns. Þessi mynd er án efa sú skrítnasta sem ég hef nokkurn tíma séð. Til að byrja með starði ég bara án þess að skilja neitt en síðan fannst mér þetta bara ekkert lítið fyndið. Næstum allir bardagarnir við skrímslin voru skemmtilegir (þetta voru frumlegustu skrímsli sem ég hef séð) en mér fannst atriðin úr daglega lífinu hans stundum vera pínu langdregin. Lokaatriðið er örugglega fyndnasta atriði sem ég sá á RIFF, fáááránlega súrt. Mér fannst Big Man Japan mjög góð skemmtun enda ekki lík neinni mynd sem ég hef séð. 

The Room (2003)

The Room kom út árið 2003 og er frumraun leikstjórans Tommy Wiseau. Hann er leikstjóri, handritshöfundur og framleiðandi myndarinnar og fer líka með aðalhlutverkið. Aðalpersónan heitir Johnny og er hann vel stæður bankamaður sem er hann trúlofaður unnustu sinni, Lisu. Johnny trúir að allt leiki í lyndi en Lisa er ekki mjög spennt yfir brúðkaupinu og segir við vinkonu sína og móður að henni finnist hann leiðinlegur. Þá flækjast málin því besti vinur Johnny, Mark, á í leynilegu ástarsambandi við Lisu og þá hefjast gífurlegar dramafléttur.


Myndin er fyrst og fremst fræg fyrir að vera líklega ein versta mynd allra tíma. Leikarar myndarinnar eru mjög ósannfærandi og lélegir í alla staði. Þrátt fyrir það nær myndin að fara heilan hring og verður í raun bráðfyndin. Hún er það léleg að hún er betri en flestar grínmyndir sem ég sé í bíóum í dag. Sem dæmi er hér hið fræga blómabúðaratriði:



Við gerð myndarinnar lýsti Tommy Wiseau myndinni við alla leikarana sem melódramatískri en eftir í seinni tíð heldur hann fram að hún sé svört kómidía, líklega til að bjarga andlitinu sínu. The Room er svokölluð cult mynd og er myndin sýnd einu sinni í mánuði í bíóhúsi í Hollywood þar sem áhorfendur myndarinnar kunna línurnar utanað og kalla þær jafnóðum þegar leikarnarnir fara með þekkta frasa. Til dæmis er eitt atriði í myndinni skreytt með undarlegum myndum af skeiðum svo í hverju atriði með því herbergi kasta allir áhorfendur skeiðum eins og brjálæðingar í átt að tjaldinu. Það má sjá hér:





Til gamans má geta að Tommy Wiseau eyddi yfir 6 milljónum bandaríkjadala við gerð myndarinnar án neinnar utanaðkomandi hjálpar. Enginn veit í raun og veru hvernig hann safnaði þessum upphæðum en eina sem hann hefur gefið upp er að hann flutti inn leðurjakka frá Kóreu.


Það er heill hellingur af fáránlega illa gerðum atriðum í The Room og mörg hafa náð miklum vinsældum á netinu (t.d. er ein frægasta lína myndarinnar „You‘re tearing me apart, Lisa!“ sem Tommy segir með óaðfinnanlegum tilþrifum). Sem dæmi um enn fleiri léleg vinnubrögð þá á einn leikarinn í einu atriði að öskra „Johnny!“, en segir óvart „Tommy!“ sem er að sjálfsögðu alvöru nafn meistara Wiseau. Þeir nenntu greinilega ekki að laga þetta og eru þessi mistök í endanlegri útgáfu The Room. Auk þess eru mjög mörg atriði dubbuð en það tekst nánast aldrei vel upp og maður sér greinilega að munnurinn hreyfist ekkert í takt. Annars er hér eitt frægasta atriðið úr myndinni sem allir verða að sjá:





The Room er hræðileg mynd en samt yfirburða skemmtun. Það er gaman að spá í öllum villunum í handritinu og erfiðleikum leikaranna við að lifa sig inn í hlutverkið sitt. Mæli hiklaust með henni.

Saturday, October 2, 2010

RIFF

Er búinn að fara á nokkrar myndir á RIFF og er nokkuð sáttur með afraksturinn. Myndirnar eru samt auðvitað misgóðar en hér eru fyrstu 4 myndirnar sem ég fór á:

Bad Family
Bad Family fjallar um mann sem skildi snemma við konuna sína og ólu þau upp sitthvort barnið, maðurinn fékk soninn og konan dótturina. Sextán árum síðar deyr konan og dóttirin kemur inn í líf feðganna og virðist ætla að eyðileggja allt sem faðirinn hafði byggt upp í lífi sonar síns. Honum líst ekkert á þetta nýja, nána samband systkinanna og reynir hvað sem það kostar að slíta þeim í sundur. Fyrsta myndin sem ég fór á og í heildina fannst mér þessi mynd nokkuð góð en stóð ekkert rosalega upp úr. Leikarahópurinn var allur mjög góður og þá sérstaklega sá sem fór með hlutverk föðurins.  Hef eiginlega ekki mikið að segja um myndina en hún var þægilega löng og plottið var ágætt (smá sifjaspell reyndar).




Womb
Womb fjallar um Rebecca og Tommy sem voru krúttlegt par sem lítil börn en aðskiljast þegar Rebecca flytur til Tokyo. Hún snýr aftur tólf árum síðar og þau taka aftur upp þráðinn frá því þegar þau voru krakkar. Tommy lætur svo skyndilega lífið í bílslysi og Rebecca bregst við því með að klóna Tommy og fæða hann aftur og ala hann upp sjálf. Veit ekki alveg hvað ég á að segja um þessa mynd. Hún fékk almennt góða dóma og ég skil vel af hverju, hún hefur mjög flottan heildarsvip og margar tökur ná að skapa sannfærandi stemningu með t.d. þöglum skotum af öldugangi við fjöru. Sum atriði fannst mér vera óþægilega "suggestive" þegar Rebecca var að leika við Tommy (eftir klónunina) og maður sá hvernig hún leit ekki alltaf á hann sem son sinn heldur gamlan elskhuga.Það væri líklega hægt að skrifa doktorsritgerð um siðfræðilegu hliðar myndarinnar, enda er þessi pæling um að klóna látinn kærasta sinn frekar óvenjuleg . Verð samt að viðurkenna að mér persónulega leið ekkert mjög vel eftir myndina og fannst hún temmilega ógeðsleg. Maður verður að horfa á hana alla til að skilja af hverju en ég vil ekki sjá þessa mynd aftur.

Cyrus
Cyrus fjallar um fráskilda manninn John sem kynnist Molly í partíi. Þau hittast svo aftur reglulega og kemur þá í ljós að Molly á 21 árs gamlan son, Cyrus, sem gengur ekki alveg heill til skógar og lendir hann í eins konar stríði við John yfir Molly. Mér fannst myndin mjög fyndin á köflum og skemmtilega súr. Hún náði einstaklega vel að fanga vandræðalegum augnablikum og allir leikararnir voru góðir í að gera flestar senur eins vandræðalegar og mögulegt var. Verð samt að segja að mér fannst myndin enda mjög snögglega, var að búast við allavega svona 15-20 mínútum til viðbótar þegar creditlistinn birtist allt í einu. Myndatakan var frekar frjálsleg og var mikið á hreyfingu, sem var kúl í mörgum atriðum, en eins og mörgum öðrum fannst mér þessi snöggu zoom yfirleitt bara óþægileg. Í heildina var þetta góð mynd samt.



Toxic Playground
Toxic Playground fjallar um eitraða blýhrúgu sem var komið fyrir í smábæ í Chile af sænska námufyrirtækinu Boliden. Krakkarnir í bænum höfðu ekki hugmynd um skaðsemi hrúgunnar og léku sér í henni eins og þetta væri sandhrúga. Mörgum árum síðar kemur í ljós að hún hafði gífurlega skaðleg áhrif og fæðast börn þar nú með hræðilegar fatlanir. Ég of félagar mínir ætluðum upphaflega á When the Dragon Swallowed the Sun en það var uppselt á hana svo við völdum einhverja mynd sem við vorum ólíklegir til að fara á venjulega og völdum þessa. Við bjuggumst ekki við miklu en þessi mynd kom svo bara rosalega á óvart! Hún fjallar jafnt um allar hliðar málsins og er rosalega hlutlaus miðað við að strákurinn sem gerði myndina er frá Chile en ólst upp í Svíþjóð. Myndin kemur manni vel inn í líf fólksins í smábænum og flettir meira að segja af mörgum vafasömu varðandi gerð samningsins um flutninginn á hrúgunni frá Svíþjóð til Chile. Toxic Playground kom skemmtilega á óvart og er með betri myndum sem ég hef farið á hingað til á RIFF.


Ég er búinn að fara á nokkrar myndir til viðbótar og skelli þeim líklega inn í öðru bloggi seinna.