Saturday, October 2, 2010

RIFF

Er búinn að fara á nokkrar myndir á RIFF og er nokkuð sáttur með afraksturinn. Myndirnar eru samt auðvitað misgóðar en hér eru fyrstu 4 myndirnar sem ég fór á:

Bad Family
Bad Family fjallar um mann sem skildi snemma við konuna sína og ólu þau upp sitthvort barnið, maðurinn fékk soninn og konan dótturina. Sextán árum síðar deyr konan og dóttirin kemur inn í líf feðganna og virðist ætla að eyðileggja allt sem faðirinn hafði byggt upp í lífi sonar síns. Honum líst ekkert á þetta nýja, nána samband systkinanna og reynir hvað sem það kostar að slíta þeim í sundur. Fyrsta myndin sem ég fór á og í heildina fannst mér þessi mynd nokkuð góð en stóð ekkert rosalega upp úr. Leikarahópurinn var allur mjög góður og þá sérstaklega sá sem fór með hlutverk föðurins.  Hef eiginlega ekki mikið að segja um myndina en hún var þægilega löng og plottið var ágætt (smá sifjaspell reyndar).




Womb
Womb fjallar um Rebecca og Tommy sem voru krúttlegt par sem lítil börn en aðskiljast þegar Rebecca flytur til Tokyo. Hún snýr aftur tólf árum síðar og þau taka aftur upp þráðinn frá því þegar þau voru krakkar. Tommy lætur svo skyndilega lífið í bílslysi og Rebecca bregst við því með að klóna Tommy og fæða hann aftur og ala hann upp sjálf. Veit ekki alveg hvað ég á að segja um þessa mynd. Hún fékk almennt góða dóma og ég skil vel af hverju, hún hefur mjög flottan heildarsvip og margar tökur ná að skapa sannfærandi stemningu með t.d. þöglum skotum af öldugangi við fjöru. Sum atriði fannst mér vera óþægilega "suggestive" þegar Rebecca var að leika við Tommy (eftir klónunina) og maður sá hvernig hún leit ekki alltaf á hann sem son sinn heldur gamlan elskhuga.Það væri líklega hægt að skrifa doktorsritgerð um siðfræðilegu hliðar myndarinnar, enda er þessi pæling um að klóna látinn kærasta sinn frekar óvenjuleg . Verð samt að viðurkenna að mér persónulega leið ekkert mjög vel eftir myndina og fannst hún temmilega ógeðsleg. Maður verður að horfa á hana alla til að skilja af hverju en ég vil ekki sjá þessa mynd aftur.

Cyrus
Cyrus fjallar um fráskilda manninn John sem kynnist Molly í partíi. Þau hittast svo aftur reglulega og kemur þá í ljós að Molly á 21 árs gamlan son, Cyrus, sem gengur ekki alveg heill til skógar og lendir hann í eins konar stríði við John yfir Molly. Mér fannst myndin mjög fyndin á köflum og skemmtilega súr. Hún náði einstaklega vel að fanga vandræðalegum augnablikum og allir leikararnir voru góðir í að gera flestar senur eins vandræðalegar og mögulegt var. Verð samt að segja að mér fannst myndin enda mjög snögglega, var að búast við allavega svona 15-20 mínútum til viðbótar þegar creditlistinn birtist allt í einu. Myndatakan var frekar frjálsleg og var mikið á hreyfingu, sem var kúl í mörgum atriðum, en eins og mörgum öðrum fannst mér þessi snöggu zoom yfirleitt bara óþægileg. Í heildina var þetta góð mynd samt.



Toxic Playground
Toxic Playground fjallar um eitraða blýhrúgu sem var komið fyrir í smábæ í Chile af sænska námufyrirtækinu Boliden. Krakkarnir í bænum höfðu ekki hugmynd um skaðsemi hrúgunnar og léku sér í henni eins og þetta væri sandhrúga. Mörgum árum síðar kemur í ljós að hún hafði gífurlega skaðleg áhrif og fæðast börn þar nú með hræðilegar fatlanir. Ég of félagar mínir ætluðum upphaflega á When the Dragon Swallowed the Sun en það var uppselt á hana svo við völdum einhverja mynd sem við vorum ólíklegir til að fara á venjulega og völdum þessa. Við bjuggumst ekki við miklu en þessi mynd kom svo bara rosalega á óvart! Hún fjallar jafnt um allar hliðar málsins og er rosalega hlutlaus miðað við að strákurinn sem gerði myndina er frá Chile en ólst upp í Svíþjóð. Myndin kemur manni vel inn í líf fólksins í smábænum og flettir meira að segja af mörgum vafasömu varðandi gerð samningsins um flutninginn á hrúgunni frá Svíþjóð til Chile. Toxic Playground kom skemmtilega á óvart og er með betri myndum sem ég hef farið á hingað til á RIFF.


Ég er búinn að fara á nokkrar myndir til viðbótar og skelli þeim líklega inn í öðru bloggi seinna.