Friday, December 3, 2010

RIFF framhald

The Dealer
Þessi mynd fjallar um daglegt líf dópsala í Ungverjalandi. Ég ætlaði að skrifa eitthvað meira um plottið en það er virkilega ekki mikið að segja. Maðurinn gengur um á milli mismunandi viðskiptavina og selur þeim eiturlyf. Lýsingin virtist áhugaverð í dagskrá hátíðarinnar en við hefðum líklega átt að líta betur á "Lengd: 135 mínútur" hlutann. Þessi mynd er óeðlilega hæg og ég held að púlsinn minn hafi verið hættulega lágur á köflum. Flest atriði voru sirka 10 mínútna löng lágmark og það var lítið um klippingar í atriðunum heldur snerist myndavélin hægt og rólega um staðinn sem tekið var á. Aftur á móti leit myndin sjálf vel út. Hún skapaði drungalega stemningu með dimmri lýsingu og spooky tónlist. Það dugði samt ekki, enda gengum við út af henni (sem var ekkert lítið pínlegt, þurftum að labba framhjá tjaldinu) þegar það voru u.þ.b. 40 mínútur eftir.


The Ape
Í þessari mynd vaknar maður á baðherbergisgólfi útataður í blóði. Hann skilur ekkert og þrífur blóðið í skelfingu og flýtir sér í vinnuna. Lýsingin á The Ape gerði mig þvílíkt forvitinn og við ákváðum að skella okkur á hana sem síðustu mynd hátíðarinnar. Það voru mikil mistök. Eins og gerðist með The Dealer var lýsingin ansi villandi. Þessi mynd er algjörlega stefnulaus og er í rauninni bara fylgst með þessum blessaða manni fara á hina og þessa staði án þess að áhorfandinn viti eitthvað hvað er í gangi. Það var eitt óþolandi við myndina og það var að þegar maðurinn keyrði um í bíl, hjólaði eða hvernig sem hann ferðaðist, þá fékk maður að sjá nánast allt ferðalagið. Myndavélinni var stundum t.d. bara plantað í framsætið þegar hann keyrði og sýndi hann einfaldlega keyra í nokkrar mínútur, án þess að neitt var að gerast. Þegar ég hugsa til baka þá man ég voða lítið hvað gerðist í myndinni, en ég man mjög skýrt að hann var að keyra um á bíl helminginn af myndinni. Sem betur var þessi bara 81 mínútur, hefði hún verið mikið lengri hefði ég gengið út.


Big Man Japan
Big Man Japan fjallar um Masaru Daisatô sem er einhvers konar ofurmenni. Forfeður hans gegndu allir þessu hlutverki en þeir geta stækkað með hjálp rafstuðs og berjast þá við skrímsli til að verja borgina. Hann er illa séður af borgarbúum og reynir að auka vinsældir sínar með hjálp umboðsmanns síns. Þessi mynd er án efa sú skrítnasta sem ég hef nokkurn tíma séð. Til að byrja með starði ég bara án þess að skilja neitt en síðan fannst mér þetta bara ekkert lítið fyndið. Næstum allir bardagarnir við skrímslin voru skemmtilegir (þetta voru frumlegustu skrímsli sem ég hef séð) en mér fannst atriðin úr daglega lífinu hans stundum vera pínu langdregin. Lokaatriðið er örugglega fyndnasta atriði sem ég sá á RIFF, fáááránlega súrt. Mér fannst Big Man Japan mjög góð skemmtun enda ekki lík neinni mynd sem ég hef séð. 

1 comment:

  1. Varðandi Big Man Japan, þá fannst mér einmitt atriðin úr daglega lífinu best.

    Fín færsla. 6 stig.

    ReplyDelete