Friday, April 1, 2011

Kvikmyndagerð 2010-2011

Jæja ég settist niður til að skrifa nokkur orð um námskeiðið. Byrjum á að fara aðeins aftur í tímann. Ég valdi kvikmyndagerð sem val í 9. bekk í grunnskóla og svo bókmennta- og kvikmyndafræði í 10. bekk (sem hafði reyndar ekkert að gera með bókmenntir). Í kvikmyndagerð fóru allir tímarnir í að taka upp efni og klippa, allir fengu að gera það sem þeir vildu og útkoman mjög skrautleg. Í kvikmyndafræði horfðum við aftur á móti á myndir og töluðum í dágóðastund um þær eftirá. Til að tengja þetta nú saman við kvikmyndagerð hér í MR þá finnst mér sum atriði úr þessum valfögum geta bætt kvikmyndagerðina hér: 
  • T.d. gefa þeim hópum sem er að taka upp/klippa frí í miðvikudagstímum. Þetta er að vísu ekki mikil breyting en það gæti hjálpað aðeins uppá tímaþröngina sem maður lendir alltaf í því það getur verið erfitt að smala saman hópum eftir skóla. Þegar miðvikudagstímarnir eru búnir er klukkan oftast að verða 5 og erfitt að byrja á einhverju áður en það er komið kvöld. Ef maður fengi frí þá væru allavega allir lausir á sama tíma og maður græðir liggur við heilan dag fyrir myndina. Þetta er ekki stór breyting en getur verið eitt af þessum litlu hlutum sem bæta. 
  • Spjalla meira um myndir sem við horfum á á miðvikudögunum. Ég man mjög vel þegar það var spjallað t.d. um Donnie Darko og Mulholland Drive í grunnskóla og hvað það vakti áhuga minn á kvikmyndum þegar maður sá alvöru pælingar um hvað var í gangi í þessum myndum. Það er að vísu aðeins erfiðara hér þar sem við erum búin í tímunum klukkan 5 og allir dauðþreyttir eftir langan dag en það mætti þá kannski spjalla um þær í föstudagstímunum, kannski í góðar 15-20 mínútur í byrjun tímans. Það þarf heldur ekki að tala um allar myndir (t.d. umskurðsmyndin, lítið að segja um hana) en myndir með flóknu plotti er alltaf gaman að pæla í.

Varðandi kvikmyndasöguna þá er hún svipuð og ég hafði búist við fyrifram. Verst hvað mér finnst kvikmyndasaga persónulega ekki mjög spennandi enda skráði ég mig fyrst og fremst fyrir verklega hlutann. Sjálf framsetningin er fín en eina sem ég hef að setja út á kvikmyndasöguna er að mér finnst hún of stór hluti af námskeiðinu og taka nánast allan tímann sem við höfum í kennslustofunni.

Svo eru það bloggin. Það er tímafrekt að skrifa gott blogg og er þess vegna ekki eitthvað sem mann hlakkar til að gera þegar maður kemur heim. Mér finnst pælingin á bakvið bloggin kannski ekki nógu góð (þá bara því það er erfitt í framkvæmd, hugmyndin sjálf er samt góð) og mér dettur í hug að hafa þá bara mini-verkefni þar sem litlir hópar (kannski 2-4 í hóp) geta tekið eitthvað spontant upp í mánudags- eða föstudagstímunum í staðinn og væri þá hægt að klippa eftir skóla. Nú veit ég ekki hvernig þetta myndi virka þar sem maður þyrfti að sleppa nokkrum kvikmyndasögutímum og það er kannski ekki vel séð að hafa einhverja ofvirka krakka með myndavél á göngunum en ég held að það gæti verið virkilega gaman að taka upp t.d. sketsa eða eitthvað þá bara rétt fyrir utan skólalóðina. Nú eftirá hugsa ég að þetta er kannski ekki mjög sniðug hugmynd en ég ætla að leyfa þessu að standa í bili. 
Annars til að hvetja til meiri bloggskrifa gæti verið snjallt að skylda alla til að blogga um myndina sem er horft á á miðvikudögum. Þá gæti það orðið meiri rútína og þá væri allavega komið eitt reglulegt blogg á viku. Ég held að fleiri myndu blogga ef þeir litu á það sem reglulegan atburð eins og stærðfræðipróf, heimadæmi o.s.frv. Svo eins og aðrir hafa nefnt þá er ég sammála um að 70 stig séu of mikið.
Hér eru svo nokkrir punktur um hitt og þetta:
  • FDF verkefnið var allt frekar random fannst mér. Veit ekki hvort það sé endilega nauðsynlegur partur af námskeiðinu, kannski er nóg að gera bara prufuverkefnið og skoða svo fleiri dæmi um hvernig þetta er notað í kvikmyndum. Ég get líka ímyndað mér að það sé erfitt að fara yfir þetta próf.
  • Finnst að myndirnar sem við gerum mættu hafa meira vægi. Man ekki allar prósenturnar en mig minnir að bloggin voru 40% af jólaeinkunn sem kom mér vel á óvart. Finnst að það mætti fórna nokkrum prósentum þaðan í myndirnar.
  • Fyrirlestrarnir eru góðir, fannst þeir skemmtilegir og fræðandi.
  • Heimsóknir frá leikstjórum var algjör snilld, mjög skemmtilegir tímar.

Eins og kom fram áðan þá skráði ég mig í þetta val fyrst og fremst fyrir verklega hlutann. Ég bjóst alveg við einhverju fræðilegu líka en hélt að öll áherslan væri á stuttmyndagerð. Veturinn er samt búinn að vera mjög skemmtilegur og ég hlakka til að sjá myndirnar á mánudaginn!




1 comment:

  1. Allt góðar athugasemdir.

    Ég er í raun alveg sammála því að hópar sem eru að taka upp/klippa mættu alveg fá frí í bíótíma. Ég veit ekki af hverju ég hafði ekki frumkvæði að því.

    Eins er ég hjartanlega sammála því að það vantaði meiri umræður um myndirnar, og satt best að segja var ég alltaf með móral að vera alltaf að senda ykkur beinustu leið heim eftir myndirna, en auðvitað allir dauðþreyttir kl. 5 á daginn, líka ég... Að taka fyrstu 15-20 mínúturnar á föstudögum í umræður um mynd vikunnar hefði örugglega verið sniðugt.

    Ég er í raun alveg sammála því að kvikmyndasagan hefði mátt taka minni tíma. Helst hefði ég viljað klára hana vel fyrir jól. Kannski hefði mátt geyma handritahlutann þangað til eftir jól og einbeitt sér algjörlega að heimildamyndum og kvikmyndasögu fyrir jól...

    Og mér finnst alls ekki léleg hugmynd að leika sér meira með myndavélina í tíma. Það er eitthvað sem hefur lengi blundað í mér.

    Flott og uppbyggileg gagnrýni. Ég mun alveg örugglega taka þetta rækilega til skoðunar. 10 stig.

    ReplyDelete