Tuesday, September 28, 2010

Citizen Kane

Í grunninn fjallar Citizen Kane um dauða Charles Foster Kane, gífurlega ríkan eiganda fréttablaðsins „The Inquirer“ en myndin sýnir líf hans frá byrjun til enda og hvernig sívaxandi veldi hans breytir honum. Á dánarbeði sínu segir hann aðeins orðið „Rosebud“ og eru blaðamenn að rannsaka hvort einhver merking sé í orðinu og reyna að komast að því hvað/hver þessi Rosebud er. Myndin þykir algjör brautryðjandi síns tíma á mörgum sviðum, t.d. myndatöku og ég tók sérstaklega eftir því hvað förðunin á aðalleikurunum er sannfærandi. Orson Welles er ekki nema 26 ára þegar hann gerir myndina (sem er einnig fyrsta alvöruverk hans) og eru margir leikararanna á svipuðum aldri. Myndin sýnir líf Charles F. Kane frá því hann er um tvítugt þar til hann er orðinn vel aldraður og ég verð að segja að gamla-kalla-lúkkið hans tókst virkilega vel upp. Welles var mjög trúverðugur í hlutverkinu sínu og ekki síður Joseph Cotten sem fór með hlutverk Jedediah Leland.

Hvað varðar myndina sjálfa og söguþráðinn þá fannst mér hún áhugaverð í heildina en ekki alveg nógu grípandi á köflum. Það voru nokkur atriði þar sem ég byrjaði að hugsa um eitthvað allt annað því það var svo lítið að gerast en það gerðist sem betur fer ekki oft. Maður er svo vanur nútímakvikmyndagerð að langar senur með löngum samtölum (og svart-hvíti liturinn gerir það pínu meira dull) ná ekki alltaf að halda athygli minni en ég skil alveg að á þeim tíma sem myndin er gerð var þetta mun eðlilegra svo ég ætla nú ekkert að setja mikið út á það.

            Eitt atriði sem fékk mig til að pæla var þegar Kane og Susan fóru í lautarferð sem má sjá á myndinni til vinstri (reyndar sést eiginlega ekki neitt). Í bakgrunninum var eitthvað skrítið í gangi því mér fannst það líta út eins það væri risastórt tjald með tilbúnum bakgrunni og einhverjum undarlegum fuglum fljúgandi um í mjög lágri upplausn. Mér fannst þetta mjög áberandi og kannski of augljóst til að vera mistök svo ég ákvað að fletta þessu upp á imdb eftir myndina. Kom þá í ljós að það var of dýrt og tímafrekt að taka atriðið upp á alvöru tökustað svo að bakgrunnurinn var fenginn úr King Kong og fuglarnir í lágu upplausninni voru í raun ekki fuglar heldur flugeðlur! Sagt er að Welles líkaði víst voða vel við þessar flugeðlur og vildi halda þeim óbreyttum.

            Það voru nokkrir aðrir gallar sem pirruðu mig pínu eins og í atriðinu þegar Kane kallar á eftir Gettys í stigaganginum heima hjá Susan þá er hljóðið greinilega ekki í sync við hann sjálfan. Nú er ég ekki nógu fróður um tæknina á þessum tíma en ég ætla bara að gera ráð fyrir því að Welles hefði lagað þetta ef hann gæti. Nú er ég búinn að setja smá út á tæknilega galla myndarinnar sem er tæplega 70 ára gömul þannig að ég skal bæta aðeins úr því. Mér fannst eitt atriði mjög flott og það var þegar Kane og félagar hans voru að horfa á ljósmynd inn um glugga af mönnum sem sátu saman og svo þegar maður hélt að þetta væri bara ljósmynd var klippt yfir þar sem þeir stóðu skyndilega upp og voru þá allir í veislu vegna velgengni Kane. Þetta var gert svo áreynslulaust að það kom mér vel á óvart fyrir svo gamla mynd þar sem þetta trick er ekki gert mikið betur í dag. Það voru fleiri atriði sem mér fannst flott og þá sérstaklega myndatakan en mér dettur ekki neitt sérstakt í hug einmitt nú.

            Í heildina fannst mér Citizen Kane temmilega góð mynd þó að ég set hana á ekki jafnháan stall og flest kvikmyndagúru gera en ég skil samt vel af hverju hún þykir meistaraverk síns tíma.

1 comment:

  1. Flott færsla. Virkilega skemmtilegur trivia-punktur sem ég hafði aldrei heyrt um. 8 stig.

    ReplyDelete