Allir ættu nú að þekkja eitt mesta meistaraverk Disney fyrr og síðar, Aladdín. Hún er ein af mörgum Disney myndum sem ég ólst upp við og ég hef séð hana nógu oft til að kunna hana nánast utanað. Myndin kom út árið 1992 svo ég var nú ekki nema eins árs þá en þrátt fyrir það var greyið spólunni gjörsamlega rústað í vídjótækinu í mörg, mörg ár. En fyrir þá sem hafa ekki séð meistaraverkið þá fjallar myndin um strákinn Aladdín sem er fátækur götustrákur og býr einn ásamt apanum sínum, Abú. Prinsessan, Jasmín, fær leið á að mega ekki að stíga fyrir utan hallarveggina og strýkur að heiman. Á götumarkaðnum hittir hún Aladdín og þá hefst ævintýrið. Jafar, ráðgjafi soldánsins, er að plotta yfirráð og notfærir sér Aladdín til að ná í lampa, sem andinn býr í, úr „töfrahellinum“. Ég held að það sé óþarfi að segja meira frá plottinu enda eiga allir að séð þessa mynd, ef ekki þá er best að skokka snöggvast út á vídjóleigu.
Myndin hefur allt sem einkennir góða Disney mynd (og allar gullaldarmyndir þeirra frá 90s): húmor sem höfðar til fólks á öllum aldri, catchy lög sem allir kunna að syngja með, eitursvalan vondakall og margt fleira sem mér dettur ekki í hug einmitt núna! Svo verð ég taka það fram að ég átti að sjálfsögðu íslensku talsetninguna sem mér finnst talsvert betri en sú enska. Þótt að Felix Bergsson tali inn á allar karlkynspersónur í teiknimyndum í dag þá er röddin hans alltaf Aladdín röddin fyrir mér. Laddi á líka þvílíkan leiksigur sem rödd andans, þvílíka yfirburðatalsetningu finnur maður í engri annarri teiknimynd. Enda hef ég lesið að Disney sjálfir hafi bent á íslensku talsetninguna fyrir andann sem fyrirmynd þegar önnur lönd voru að vinna í sinni talsetningu, t.d. Japan. Arnar Jónsson brillerar líka sem Jafar.
Hluti af góðu gengi myndarinnar er örugglega að þakka supervising animator myndarinnar, Glen Keane. Hann bjó til og hannaði Aladdín sjálfan og hefur skapað margar þekktustu persónur Disney mynda, t.d. dýrið úr Fríða og Dýrið, Ariel úr Litlu Hafmeyjunni, Pocahontas, Tarzan og m.a. Rapunzel úr Tangled (sem er geðveik, mæli mjög með henni). Allt sem maðurinn gerir er gull!
Ég veit ekki hvort ég eigi eitthvað eitt uppáhaldsatriði í myndinni en það eru nokkur sem standa upp úr. Ég dýrka atriðið þegar Jafar dulbýr sig sem hundgamall kall og hjálpar Aladdín að flýja úr dýflissu sem honum var fleygt í. Öll lögin eru líka í miklu uppáhaldi, sérstaklega „Þú átt engan betri vin en mig“. Fann meira að segja íslensku útgáfuna á youtube!
Þess má líka til gamans geta að myndin vann til Óskarsverðlauna fyrir besta lagið, A Whole New World.
Þess má líka til gamans geta að myndin vann til Óskarsverðlauna fyrir besta lagið, A Whole New World.
Myndin er mjög stór hluti af æsku minni og ég er enn í dag að kvóta úr myndinni við vini mína og systkini mín (ég er alltaf að troða inn „ég trúi þessu ekki, að tapa fyrir teppi!“ eða „við erum allir með sverð!“) og ég held að ég muni aldrei eldast upp úr þessari mynd.