Friday, December 3, 2010

RIFF framhald

The Dealer
Þessi mynd fjallar um daglegt líf dópsala í Ungverjalandi. Ég ætlaði að skrifa eitthvað meira um plottið en það er virkilega ekki mikið að segja. Maðurinn gengur um á milli mismunandi viðskiptavina og selur þeim eiturlyf. Lýsingin virtist áhugaverð í dagskrá hátíðarinnar en við hefðum líklega átt að líta betur á "Lengd: 135 mínútur" hlutann. Þessi mynd er óeðlilega hæg og ég held að púlsinn minn hafi verið hættulega lágur á köflum. Flest atriði voru sirka 10 mínútna löng lágmark og það var lítið um klippingar í atriðunum heldur snerist myndavélin hægt og rólega um staðinn sem tekið var á. Aftur á móti leit myndin sjálf vel út. Hún skapaði drungalega stemningu með dimmri lýsingu og spooky tónlist. Það dugði samt ekki, enda gengum við út af henni (sem var ekkert lítið pínlegt, þurftum að labba framhjá tjaldinu) þegar það voru u.þ.b. 40 mínútur eftir.


The Ape
Í þessari mynd vaknar maður á baðherbergisgólfi útataður í blóði. Hann skilur ekkert og þrífur blóðið í skelfingu og flýtir sér í vinnuna. Lýsingin á The Ape gerði mig þvílíkt forvitinn og við ákváðum að skella okkur á hana sem síðustu mynd hátíðarinnar. Það voru mikil mistök. Eins og gerðist með The Dealer var lýsingin ansi villandi. Þessi mynd er algjörlega stefnulaus og er í rauninni bara fylgst með þessum blessaða manni fara á hina og þessa staði án þess að áhorfandinn viti eitthvað hvað er í gangi. Það var eitt óþolandi við myndina og það var að þegar maðurinn keyrði um í bíl, hjólaði eða hvernig sem hann ferðaðist, þá fékk maður að sjá nánast allt ferðalagið. Myndavélinni var stundum t.d. bara plantað í framsætið þegar hann keyrði og sýndi hann einfaldlega keyra í nokkrar mínútur, án þess að neitt var að gerast. Þegar ég hugsa til baka þá man ég voða lítið hvað gerðist í myndinni, en ég man mjög skýrt að hann var að keyra um á bíl helminginn af myndinni. Sem betur var þessi bara 81 mínútur, hefði hún verið mikið lengri hefði ég gengið út.


Big Man Japan
Big Man Japan fjallar um Masaru Daisatô sem er einhvers konar ofurmenni. Forfeður hans gegndu allir þessu hlutverki en þeir geta stækkað með hjálp rafstuðs og berjast þá við skrímsli til að verja borgina. Hann er illa séður af borgarbúum og reynir að auka vinsældir sínar með hjálp umboðsmanns síns. Þessi mynd er án efa sú skrítnasta sem ég hef nokkurn tíma séð. Til að byrja með starði ég bara án þess að skilja neitt en síðan fannst mér þetta bara ekkert lítið fyndið. Næstum allir bardagarnir við skrímslin voru skemmtilegir (þetta voru frumlegustu skrímsli sem ég hef séð) en mér fannst atriðin úr daglega lífinu hans stundum vera pínu langdregin. Lokaatriðið er örugglega fyndnasta atriði sem ég sá á RIFF, fáááránlega súrt. Mér fannst Big Man Japan mjög góð skemmtun enda ekki lík neinni mynd sem ég hef séð. 

The Room (2003)

The Room kom út árið 2003 og er frumraun leikstjórans Tommy Wiseau. Hann er leikstjóri, handritshöfundur og framleiðandi myndarinnar og fer líka með aðalhlutverkið. Aðalpersónan heitir Johnny og er hann vel stæður bankamaður sem er hann trúlofaður unnustu sinni, Lisu. Johnny trúir að allt leiki í lyndi en Lisa er ekki mjög spennt yfir brúðkaupinu og segir við vinkonu sína og móður að henni finnist hann leiðinlegur. Þá flækjast málin því besti vinur Johnny, Mark, á í leynilegu ástarsambandi við Lisu og þá hefjast gífurlegar dramafléttur.


Myndin er fyrst og fremst fræg fyrir að vera líklega ein versta mynd allra tíma. Leikarar myndarinnar eru mjög ósannfærandi og lélegir í alla staði. Þrátt fyrir það nær myndin að fara heilan hring og verður í raun bráðfyndin. Hún er það léleg að hún er betri en flestar grínmyndir sem ég sé í bíóum í dag. Sem dæmi er hér hið fræga blómabúðaratriði:



Við gerð myndarinnar lýsti Tommy Wiseau myndinni við alla leikarana sem melódramatískri en eftir í seinni tíð heldur hann fram að hún sé svört kómidía, líklega til að bjarga andlitinu sínu. The Room er svokölluð cult mynd og er myndin sýnd einu sinni í mánuði í bíóhúsi í Hollywood þar sem áhorfendur myndarinnar kunna línurnar utanað og kalla þær jafnóðum þegar leikarnarnir fara með þekkta frasa. Til dæmis er eitt atriði í myndinni skreytt með undarlegum myndum af skeiðum svo í hverju atriði með því herbergi kasta allir áhorfendur skeiðum eins og brjálæðingar í átt að tjaldinu. Það má sjá hér:





Til gamans má geta að Tommy Wiseau eyddi yfir 6 milljónum bandaríkjadala við gerð myndarinnar án neinnar utanaðkomandi hjálpar. Enginn veit í raun og veru hvernig hann safnaði þessum upphæðum en eina sem hann hefur gefið upp er að hann flutti inn leðurjakka frá Kóreu.


Það er heill hellingur af fáránlega illa gerðum atriðum í The Room og mörg hafa náð miklum vinsældum á netinu (t.d. er ein frægasta lína myndarinnar „You‘re tearing me apart, Lisa!“ sem Tommy segir með óaðfinnanlegum tilþrifum). Sem dæmi um enn fleiri léleg vinnubrögð þá á einn leikarinn í einu atriði að öskra „Johnny!“, en segir óvart „Tommy!“ sem er að sjálfsögðu alvöru nafn meistara Wiseau. Þeir nenntu greinilega ekki að laga þetta og eru þessi mistök í endanlegri útgáfu The Room. Auk þess eru mjög mörg atriði dubbuð en það tekst nánast aldrei vel upp og maður sér greinilega að munnurinn hreyfist ekkert í takt. Annars er hér eitt frægasta atriðið úr myndinni sem allir verða að sjá:





The Room er hræðileg mynd en samt yfirburða skemmtun. Það er gaman að spá í öllum villunum í handritinu og erfiðleikum leikaranna við að lifa sig inn í hlutverkið sitt. Mæli hiklaust með henni.