Þegar ég var spurður hver uppáhalds kvikmyndin mín væri fyrir 4-5 árum var ég alltaf óákveðinn og taldi í hvert skipti upp mismunandi myndir svo að ég tók mig til fyrir ekki svo löngu og valdi eina mynd sem ég ákvað að gefa þennan stóra heiður. Það var myndin The Prestige eftir snillinginn Christopher Nolan með stórleikurunum Christian Bale og Hugh Jackman í aðalhlutverkum. Hún var ein af þessum myndum sem ég vildi að hætti aldrei meðan ég horfði á hana, alveg fram á síðustu mínútu. Myndin fjallar um tvo vini og töframenn/sjónhverfingarmenn sem lenda í deilum og keppast um hvor getur samið betra töfrabragð. Umhverfi og sögusvið myndarinnar (London undir lok 19. aldar) heillaði mig mjög mikið og söguþráðurinn fannst mér einstaklega grípandi, sérstaklega „twistið“ í lokin. Hver einasti leikari stóð sig frábærlega, Michael Caine var stórgóður eins og venjulega og meira að segja David Bowie var betri en ég bjóst við. Toppmynd.
Næst ætla ég að velja Indiana Jones and the Last Crusade sem allir ættu að kannast við. Ég sá hana fyrst þegar ég var lítill og var þá þegar dolfallinn Indy aðdáandi. Harrison Ford fer að vanda með hlutverk Indiana Jones og fjallar myndin um för hans eftir heilaga kaleiknum og slæst faðir hans í för með honum, sem er leikinn af Sean Connery, sem hefur einhverra hluta vegna ekki elst síðan myndin var gerð. Sem lítill krakki hafði ég sérstaklega gaman af atriðunum þegar Indiana Jones leysir fornar þrautir og hleypur frá risastórum steinhnullungum sem elta hann eftir göngum.
Ein mynd ómissandi á þennan lista er Disney-myndin Herkúles. Hún er mjög gott dæmi um ofspilaða mynd á heimilinu fyrr á árum og er nánast betri í hvert skipti sem maður horfir á hana. Þetta er ein af þessum myndum sem maður kann nánast hvert atriði utan að og hlær alltaf jafnmikið af öllum atriðum. Þótt flestir kunna líklega söguþráðinn fjallar myndin um verkefni Herkúlesar að sanna sig sem sönn hetja til að ganga í guðatölu. Hades, aðalóvinur Herkúlesar í myndinni, er að mínu mati besti karakter sem Disney hefur búið til ásamt Jafar úr Aladdin, bæði í enskri og íslenskri talsetningu (þó Jafar sé áberandi betri í íslensku útgáfunni).
Næst fyrir valinu er myndin Life of Brian eftir Monty Python gengið. Mögulega fyndnasta mynd allra tíma og endalaust hægt að „quote-a“ góða frasa úr henni. Erfitt er að velja atriði sem standa upp úr en öll atriði sem innihalda Pontíus Pílatus og Biggus Dickus eru ódauðleg. Söguþráður myndarinnar er ekki mjög digur, eins og í öllum öðrum Monty Python myndunum, en er þó digrastur af þeim öllum. Hún fjallar um hremmingar Brians í Júdeu og hina ógnvekjandi Rómverja. Myndin sló svo vel í gegn að lagið Always Look on the Bright Side of Life er oft sungið í jarðaförum og er líklega frægara en myndin sjálf. Af öllum Monty Python myndunum þykir mér þessi best, þó þær séu allar í miklu uppáhaldi.
Að lokum verð ég að nefna Crank: High Voltage. Hin fullkomna blanda af spennu og gríni. Þó svo að The Prestige sé uppáhalds myndin mín er Jason Statham án efa uppáhalds leikarinn minn. Ég geri mér grein fyrir að hann er ekki líklegasti leikarinn til að vera tilnefndur til Óskarsverðlauna en ég hef einfaldlega svo gaman af öllum myndunum hans að ég get ekkert að þessu gert. Jason Statham fer með hlutverk Chev Chelios sem lendir í því óláni að hjartanu hans er skipt út fyrir gervihjarta sem gengur fyrir rafhlöðum. Þær klárast fljótlega og hann getur því bara haldið sér á lífi með að gefa sjálfum sér rafstuð til að hlaða tækið. Myndin er gjörsamlega á fullu allan tímann og hleypir púlsinum ekki undir 150 slög á mínútu. Að fara á þessa mynd í bíó var þvílíkur rússíbani.
Eftir að hafa skrifað um Jason Statham var mér hugsað til Snatch sem hefði í rauninni átt að vera á þessum lista en sökum plássleysis verður þetta að nægja.